Viðskipti innlent

Efnahagsbrotadeild ekki beðið um gögn frá Fons

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra hefur ekki beðið um bókhaldsgögn frá þrotabúi Fons, sem var eigu Pálma Haraldssonar. Fons lék lykilhlutverk í kaupunum á danska flugfélaginu Sterling. Efnahagsbrotadeildin rannsakar nú þátt Hannesar Smárasonar í kaupunum og framkvæmdi þrjár húsleitir í gær.

Óskar Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús Fons, staðfesti við fréttastofu í gærkvöld að efnahagsbrotadeildin hefði ekki beðið um nein bókhaldsgögn tengd kaupum eða sölu Fons á Sterling árið 2005.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildarinnar, sagði í viðtali við danska blaðið Berlingske Tidende í gærkvöld að meðal þess sem verið væri að rannsaka væri meint 46 milljón dollara (um fimm milljarða) lán til félags í eigu Hannesar í Lúxemburg til að liðka fyrir kaupum Pálma á Sterling á vormánuðum 2005.

Fons keypti Sterling á fimm milljarða vorið 2005. Sex mánuðum seinna keypti FL Group Sterling á fimmtán milljarða. Ári seinna var svo félagið brætt inn í Northern Travel Holding. Verðmæti þá var tuttugu milljarðar.






Tengdar fréttir

Steingrímur fagnar vasklegri framgöngu

„Ég fagna því að rannsóknarmenn séu að ganga vasklega til verks í þessum málum. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir því að þessari rannsóknarvinnu miðaði áfram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúar á vegum sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins gerðu í gær húsleit hjá lögmannastofunni Logos.

Húsleit hjá Hannesi Smárasyni

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit að Fjölnisvegi 9 og 11 í morgun en þau hús eru skráð á eiginkonu Hannesar Smárasonar annarsvegar og hinsvegar á eignarhaldsfélag sem er í eigu Hannesar. Einnig var gerð húsleit hjá lögfræðistofunni Logos í tengslum við málið.

Meint ólöglegt lán rannsakað

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar meint ólöglegt fimm milljarða króna lán FL Group til Hannesar Smárasonar, fyrrum forstjóra félagsins. Lánið er talið hafa verið notað til kaupa á Sterling-flugfélaginu árið 2005. Einnig er til rannsóknar hvort Hannes hafi orðið uppvís af umboðssvikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×