Innlent

Tekist á um aðstoðarmennina

Ármann Kr. Ólafsson
Ármann Kr. Ólafsson
Í sparnaðar- og niðurskurðarvinnu Alþingis síðustu dægrin hefur verið lagt til að aðstoðarmenn þingmanna landsbyggðarkjördæmanna verði slegnir af. Áætlað er að kostnaður við kerfið nemi um 60 milljónum á ári.

Þingmenn úr röðum stjórnarliða hafa lagt til að fyrirkomulaginu verði hætt, meðal annars Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Í ræðu við aðra umræðu fjárlaga kallaði Ármann það lúxus. Ólöf Nordal Sjálfstæðisflokki og Árni Páll Árnason hafa líka talað í sömu átt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, tekið tillögunni þungt og raunar lagst gegn henni.

Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna fengu að ráða sér aðstoðarmenn í þriðjungsstarfi á fjórðungi af launum þingmanna fyrr á árinu. Rót þeirrar ráðstöfunar er að finna í umræðum um síðustu breytingu kjördæmaskipunarinnar en við hana stækkuðu landsbyggðarkjördæmin til muna. Er aðstoðarmönnunum ætlað að viðhalda tengslum þingmanna kjördæmanna við kjósendur og styrkja um leið störf þeirra í þinginu.

Þrír þingmenn landsbyggðarkjördæmanna hafa ekki ráðið sér aðstoðarmenn. Það eru Árni Johnsen Sjálfstæðisflokki, Eygló Harðardóttir Framsóknarflokki og Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum. -bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×