Innlent

Verðum að ákveða hvert við ætlum að stefna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist ekki geta fullyrt að ESB aðild verði samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem haldinn verður í lok janúar. Í samtali við Björn Inga Hrafnsson í Markaðnum, sagðist Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir telja að stór hópur sjálfstæðismanna væri á móti því að sækja aðild, en jafnframt væri stór hópur fólks jákvæður og vildi afla sér meiri upplýsinga. Hún sagðist þó telja það líklegra en ekki að sjálfstæðismenn samþykktu að sækja um aðild. „Við verðum að fara að taka ákvörðun um það hvaða peningamálastefnu við ætlum að rækta hér til framtíðar," sagði Þorgerður. Hún sagði að Íslendingar hefðu fengið meiri hagsmuni en minni í gegnum EES samninginn, en núna væru Íslendingar kominr að algjörum krossgötum og yrðu að taka ákvarðanir sem leiddu til framtíðar.

Þorgerður sagðist ánægð með það hvernig nefndarvinna um ESB færi af stað fyrir landsfund og hafnaði öllum fullyrðingum um það að í forystu nefndanna hefði skipast fólk sem væri með fyrirfram mótaða afstöðu gagnvart sambandinu. Þá hafnaði Þorgerður algjörlega fullyrðingum um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttur hefði hótað sjálfstæðismönnum, þegar hún sagði í fjölmiðlum að ríkisstjórnarsamstarfinu væri sjálfhætt ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki samþykkja ESB aðild á landsfundi. „Og ég hef líka sagt að hún Ingibjörg Sólrún vinnur ekki þannig," segir Þorgerður Katrín.

Þá sagði Þorgerður Katrín að það væri algjörlega raunsætt mat að það þyrfti að fara í aukna hagræðingu og aukinn niðurskurð í ríkisfjármálum árið 2010. Það hefði verið þensla á ríkissjóði. „Það má ef til vill gagnrýna fyrir það að við höfum ekki gætt að okkur á meðan þenslan ríkti," segir Þorgerður, en bendir á að í fjárlögum fyrir árið 2009 sé ríkið að bremsa sig af.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×