Viðskipti innlent

Halli of mikill fyrir Evrópusambandið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni M. Matthiessen, fjármálaráðherra, kynnti í gær fjárlög næsta árs.
Árni M. Matthiessen, fjármálaráðherra, kynnti í gær fjárlög næsta árs. Fréttablaðið/Anton
Ný fjárlög uppfylla ekki skilyrði Maastricht-sáttmála Evrópusambandsins um efnahagslegan stöðugleika. Samkvæmt þeim hefði halli á fjárlögum næsta árs ekki mátt fara yfir 47,3 milljarða króna.

Í fjárlögunum sem kynnt voru í gær er gert ráð fyrir 57 milljarða króna halla, eða 3,7 prósentum af vergri landsframleiðslu. Maastricht-skilyrðin kveða á um að halli á fjárlögum megi ekki fara yfir þrjú prósent. Samkvæmt nýrri spá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins verður landsframleiðslan 1.575,3 milljarðar króna.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist, í viðtali við Markaðinn undir lok ágúst, telja rétt að íslensk stjórnvöld stefndu að því að uppfylla sem fyrst Maastricht-skilyrðin. „Það eru almennir hagsmunir okkar að gera það, óháð Evrópusambandinu,“ sagði hann og taldi að þjóðin myndi á endanum uppfylla þau öll, ef sá árangur næðist sem að væri stefnt og lýst í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Þó svo að halli næsta árs nemi 3,7 prósentum er ráð fyrir því gert að ríkisreksturinn verði innan marka næstu ár. Árið 2010 er gert ráð fyrir 2,8 prósenta halla, 1,1 prósents halla 2011 og svo jákvæðri afkomu upp á 0,20 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2012.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×