Innlent

Handboltaæði að grípa um sig

Sannkallað handboltaæði ríkir á Íslandi eftir að Íslendingar tryggðu sér sæti í undanúrslitum Ólympíuleikanna.

Íslenska handboltalandsliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Ólympíuleikanna eftir góðan sigur á sterku liði Pólverja, 32:30. Er nú öruggt að íslenska liðið spilar til verðlauna en hvort það verður um gullið eða bronsið kemur í ljós á föstudaginn.

Fjölmargir Íslendingar tóku daginn snemma til að fylgjast með leiknum í morgun, flestir þeirra heima í stofu enda hófst leikurinn rúmlega sex í morgun. Þó voru óvenjumargir fyrir framan skjáina á hlaupabrettunum í Laugum í morgun og þar myndaðist mikil stemmning yfir leiknum.

Og árangur íslenska liðsins vekur athygli víðar en hér á landi. Í fréttaskeyti Reuters-fréttastofunnar segir að hið litla Ísland hafi komið allra liða mest á óvart í keppninni. Segir að nokkrir íslenskir handboltamenn hafi gert það gott á erlendum vettvangi, jafnvel þótt fáir Íslendingar fylgist með íþróttinni. Íslendingar kjósi frekar að horfa á fótbolta og körfubolta. Hornamaðurinn Alexander Petterson segir við Reuters að sigurinn sé ótrúlegur miðað við íbúafjölda þjóðanna og fram undan sé handboltaæði á Íslandi.

Fréttastofa hringdi í nokkrar íþróttavöruverslanir til að spyrjast fyrir um sölu á landsliðstreyjum. Eftirspurnin er umtalsverð og hafa fjölmargir haft samband og spurst fyrir um treyjurnar. Framboðið er hins vegar öllu minna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×