Erlent

Pólitískum föngum fækkar á Kúbu

Raul Castro hefur haldið um stjórnartaumana á Kúbu í rúmt hálft ár.
Raul Castro hefur haldið um stjórnartaumana á Kúbu í rúmt hálft ár.

Pólitískum föngum á Kúbu hefur fækkað það sem af er ári samkvæmt nýrri skýrslu mannréttindasamtaka í landinu. Samtökin segja þó að nýjum forseta, Raul Castro, fylgi þó ekki grundvallarbreytingar í mannréttindamálum.

Síðastliðin tvö ár hefur pólitískum föngum fækkað á eyjunni en á þeim tíma hefur Raul stjórnað landinu. Hann tók formlega við sem forseti af bróður sínum Fidel í byrjun árs og frá þeim tíma hefur pólistískum föngum fækkað um 15 og eru þeir nú um 220. Þá hefur Raul skrifað undir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Mannréttindasamtök benda þó á að menn sé enn hnepptir í varðhald vegna skoðana sinna en nýjum aðferðum sé beitt. Í stað þess að handtaka áberandi menn og fangelsa þá til langs tíma taki lögregla stjórnarandstæðinga oft skömmu fyrir mótmæli og haldi þeim í skamman tíma.

Stjórnvöld á Kúbu líta reyndar ekki á hina handteknu sem pólitíska fanga heldur málaliða á vegum Bandaríkjastjórnar sem fái greitt fyrir að grafa undar kommúnistastjórninni á Kúbu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×