Neikvæðar horfur alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch á lánshæfi bankanna ráðast af því að landið sé ekki nógu vel undir það búið að standa af sér langvarandi áhættufælni á alþjóðamörkuðum.
Fyrirtækið sendi í gær frá sér sérstaka skýrslu um landið og bankana. Þar er nokkrum staðhæfingum hafnað, svo sem að landið geti flokkast með nýmarkaðsríkjum og að líkur séu á að hér verði frjálst flæði fjármagns takmarkað.
„Ísland er þróað markaðshagkerfi og bönkum landsins í sjálfs vald sett að taka ákvarðanir án ríkisafskipta,“ segir í skýrslunni, en bætt er við að eftir á að hyggja hefðu eftirlitsstofnanir fjármála mátt huga betur að uppbyggingu bankanna, hraða útrásar og leiðum í fjármögnun. Þá er bent á að stjórn peningamála sé hér ábótavant og að Seðlabankann skorti stuðning í að koma böndum á verðbólgu. Í þeim efnum er bæði bent á illa skilgreint hlutverk Íbúðalánasjóðs og hluti á borð við skattalækkanir ríkisins á þenslutímum.
„Þróunin hefur blásið nýju lífi í umræðu um kosti evruaðildar,“ segir Fitch og segir hana myndu draga úr ójafnvægi hagkerfisins hér um leið og eyða gengisáhættu. „Líkur á að Ísland nái verðbólgu- og stýrivaxtagildum evrusvæðisins í nánustu framtíð eru hins vegar fjarlægar.“

