Innlent

ABC barnahjálp í fjárhagsvandræðum

Guðrún Margrét Pálsdóttir, formaður ABC Barnahjálpar.
Guðrún Margrét Pálsdóttir, formaður ABC Barnahjálpar. MYND/Anton Brink

Starf ABC barnahjálpar erlendis á í verulegum vanda vegna veikingar krónunnar og hækkandi matarverðs auk þess sem verðbólga í löndunum sem ABC starfar í hefur aukið á vandann.

Krónan hefur veikst eins og kunnugt er yfir 40% frá áramótum og hefur ABC barnahjálp sent beiðni til stuðningsaðila sinna að hækka framlög sín með styrktarbörnunum ef þeir hafa tök á.

Samkvæmt tilkynningu frá ABC er staðan þannig að auknar tekjur þurfa að koma inn án tafar til að hægt sé að greiða laun kennara og kaupa mat og aðrar nauðsynjar fyrir börnin svo ekki þurfi að vísa óstuddu börnunum í burtu.

ABC barnahjálp mun taka upp á ýmsu á næstunni til að auka tekjur starfsins þar sem þarfirnar eru fjölmargar og brýnar. Ein þessara leiða er sala notaðra bíla. Bílasala Guðfinns mun taka við notuðum bílum fyrir ABC sem fólk vill losa sig við og selja til styrktar starfinu. Sjóvá leggur málinu lið með því að leggja til tryggingar meðan bílarnir standa og greiða eigendaskiptagjöld þannig að söluandvirðið geti runnið óskipt til ABC.

Tekið er á móti framlögum til að bæta úr brýnustu þörfum ABC á reikning númer 1155-15-41411, kt. 690688-1589.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×