Innlent

Kínverjar styðja framboð Íslands til Öryggisráðsins

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra var gestur í Silfri Egils Helgasonar fyrir stundu. Fór hún um víðan völl og ræddi meðal annars um evrópusambandsaðild, öryggisráðið og íslensku krónuna. Ingibjörg sagði Kínverja styðja framboð Íslands til Öryggisráðsins.

Hún lagði áherslu á að framboð okkar væri norrænt og fulltrúar norðurlandanna hafi þrýst á okkur að bjóða okkur fram og sagði það skipta miklu máli. „Okkar heiður er að veði og við verðum að gera þetta almennilega á lokasprettinum og komast frá þessu með sóma," sagði Ingibjörg.

Hún sagðist leggja mikla áherslu á að fara ekki frá þessu með skottið á milli lapanna því hún vildi ekki að það væri orðspor okkar á alþjóðavettvangi.

Ingibjörg telur möguleika okkar ágæta og segir þann stuðning sem við teljum okkur vera með eiga að duga ef hann skilar sér allur. Hún sagði Tyrkland og Austurríki, sem einnig sækjast eftir sætinu, leggja mikið á sig og eyða gríðarlegum fjármunum sem við gætum ekki gert. „Við reynum að vekja athygli á okkur og það hefur gengið ágætlega."

Ingibjörg sagðist ekki vita hvort við værum með stuðning Bandaríkjanna þar sem þeir gæfu það ekki upp en Kína styður okkur að sögn Ingibjargar.

Aðspurð um þá gagnrýni sem Ingibjörg hefur orðið fyrir um að hún sé of lítið að sinna málum hér á landi sagði hún. „Ég stend mig hér heima og geri það alveg svikalaust. Það er líka komin ágæt tækni eins og tölva og sími. Það er ýmislegt hægt að gera þó maður sé ekki endilega á hverjum degi á staðnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×