Innlent

Ætlar að ganga í bæinn og mótmæla

Sturla Jónsson leggur af stað klukkan 15:00 í dag.
Sturla Jónsson leggur af stað klukkan 15:00 í dag.

Sturla Jónsson talsmaður vörubílstjóra undanfarinna vikna ætlar að mótmæla háu bensínverði, hvíldartíma og fleiru í dag. Sturla hefur verið öflugur í mótmælunum og hefur hingað til mótmælt á vörubílnum sínum. Nú hefur honum verið lagt og ætlar Sturla að labba í bæinn.

„Ég ætla að labba frá Húsi Verslunarinnar og niður á Austurvöll með spjald," segir Sturla en á því eru slagorð gegn háu bensínverði, hvíldartíma o.fl.

Sturla ætlar að leggja af stað klukkan 15:00 í dag og hvetur fólk ekkert sérstaklega til þess að slást í för með sér. „Ég hvet engann til þess, en ef einhver hefur áhuga að labba með mér skipti ég mér ekki að því."

En er Sturla þá búinn að leggja vörubílnum? „Nei þeir eru ennþá með hann," segir Sturla og á þar við lögregluna. Bíll Sturlu var fjarlægður úr Urriðaholti á miðvikudaginn og er töluvert skemmdur að sögn Sturlu.

Og hann veit ekki hvenær hann fær bílinn aftur. „Það þarf að fara í einhver lögfræðimál með það. Yfirvöld geta ekki bara eyðilagt eigur þínar og sagt þér síðan að laga þær sjálfur, það er ekki að virka."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×