Viðskipti innlent

Búast við bindandi tilboði í MK One í næstu viku

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir marga hafa haft áhuga á að kaupa MK One
Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, segir marga hafa haft áhuga á að kaupa MK One

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir í samtali við Vísi að félagið búist við bindandi tilboði í bresku verslunarkeðjuna MK One í næstu viku en hún var sett í söluferli fyrr í þessum mánuði.

"Við vonumst til að klára þetta sem fyrst. Það hafa margir lýst yfir áhuga á því að kaupa MK One," segir Gunnar við Vísi nú í morgun. 

Í Sunday Telegraph í dag er grein þar sem greint er frá því að birgjar MK One séu allt annað en ánægðir með þá ákvörðun stjórnenda félagsins að greiða ekki vörur vegna yfirvofandi sölu Baugs á keðjunni.

Gunnar segir það ósköp eðlilegt að birgjarnir reyni allt til að fá borgað og beiti fjölmiðlum fyrir sig á meðan MK One er í söluferli.  

Greint var frá því um síðustu helgi að greiðslur til birgja hefðu verið stöðvaðar. Í frétt Sunday Telegraph í morgun er greint frá því að birgjarnir, sem skipta tugum, hafi sent MK One viðvörun þar sem verslunarkeðjunni er gert að greiða útistandi skuldir innan einnar viku. Samkvæmt frétt blaðsins nema skuldir MK One við birgjana milljónum punda.

Einn birgjanna er Venus Technology sem blaðið segir að MK One skuldi 300 þúsund pund eða um 44 milljónir króna sem er þriðjungur af veltu þess. "Viðskipti okkar við MK One eru um 95% af öllum okkar viðskiptum. Við treystum algjörlega á fyrirtækið og erum ekki tryggðir fyrir neinu," segir Parminder Ghuman, einn stjórnenda Venus, í samtali við Sunday Telegraph.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×