Innlent

Systkin dæmd fyrir að ráðast á lögregluþjón

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag systkin í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á lögregluþjón í anddyri lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði á gamlárskvöld árið 2006.

Var bróðurnum, sautján ára pilti, gefið að sök að hafa skallað lögregluþjóninn tvisvar í andlitið og systurinn að hafa klórað hann í andlitið og bitið í handlegg hans.

Upphaf málsins var það að lögregla var kölluð til vegna innbrots í hús í Hafnarfirði og var pilturinn þar ásamt félaga sínum. Var þeim vísað út úr húsinu og áfengi um leið tekið af piltinum. Hann brást illa við og sagðist myndu sækja systur sína til þess að fá áfengið afhent.

Þegar lögregla sagði þeim systkinum á lögreglustöðinni að áfengið yrði ekki afhent kom til handalögmála. Pilturinn kannaðist við að hafa skallað lögreglumanninn og systir hans kannaðist einnig við sín brot. Þau báru því hins vegar við að þau hefðu verið að verjast harðræði lögreglumannsins en á það lagði dómurinn ekki trúnað.

Hvorugt systkinanna hafði komist í kast við lögin áður og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×