Erlent

Ólympiuleikarnir settir í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Þjóðarleiðtogar víðsvegar úr heiminum streyma nú til Peking til að vera viðstaddir opnunarhátíð Ólympíuleikanna sem fram fer í kvöld. Talið er að um 10 þúsund manns taki þátt í athöfninni og að fjórir milljarðar manna muni horfa á.

Athygli manna hefur að miklu leyti beinst að mannréttindamálum og loftslagsmálum í aðdraganda leikanna. George Bush bandaríkjaforseti er einn þeirra sem hefur tjáð sig um stöðu mannréttindamála í Kína að undanförnu. Hann var staddur í Tælandi í gær og lýsti þá yfir miklum áhyggjum af framkomu kínverskra stjórnvalda gagnvart mótmælendum, en sagði jafnframt að hann vildi að athygli manna beindist að íþróttum á meðan að Ólympíuleikarnir færu fram. Kínversk stjórnvöld frábáðu sér afskipti bandaríkjaforseta af innanríkismálefnum þeirra og sögðu að mannréttindi væru virt í Kína.

Breska Ríkisútvarpið, BBC, fullyrðir að mengun í Peking sé langt umfram þau mörk sem Alþjóða heilbrigðisstofgnunin setur. En Jacques Rogge, yfirmaður Alþjóða Ólympíunefndarinnar, hefur lofað aðgerðir Kínverja til að draga úr mengun. Hann svarar því til að ef mengun verði of mikil verði hægt að fresta íþróttaviðburðum sem taki meira en eina klukkustund.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×