Viðskipti innlent

Ísfélagið í Vestmannaeyjum skilaði 1,1 milljarði kr. í hagnað

Ísfélag Vestmannaeyja skilaði góðu uppgjöri á síðasta ári og nam hagnaðurinn 1,1 milljarði króna.

Heildarvelta samstæðu Ísfélags Vestmannaeyja hf. var kr. 6.301 milljónir kr. og hækkaði um rúmar 2.400 milljónir kr. frá árinu áður. Hagnaður fyrir afskriftir og vexti var rúmlega 200 milljónum hærri en árið áður eða 1.410 milljónir kr. og var 22,4% af veltu ársins.

Hagnaður ársins 2007 var 1.123 milljónir kr. á móti tapi árið 2006 upp á 437 milljónir kr.. Heildareignir félagsins í lok árs 2007 voru rúmir 14 milljarðar kr.. Heildarskuldir félagsins í árslok voru 9,6 milljarðar kr. og eigið fé rúmir 3,7 milljarðar kr.. Eiginfjárhlutfall í árslok var 26,9%.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að síðasta rekstrarár var gott í sögu félagsins og einkenndist það af miklum breytingum þar sem margar ákvarðanir voru teknar til að styrkja félagið til framtíðar.

Í upphafi ársins var ráðist í kaup á öllu hlutafé í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf sem rekur tvö uppsjávarskip, kúffiskveiðiskip, fiskimjölsverksmiðju, frystihús og kúffiskvinnslu. Eftir kaupin hefur sameiginlegt félag yfir að ráða rúmlega 20% kvóta í loðnu og norsk‐íslenskri síld, 14% kvóta í sumargotssíld og 5% af kolmunnakvóta, auk veiðiheimilda í bolfiski.

Samhliða kaupunum var starfsemi í bræðslu félagsins á Krossanesi í Eyjafirði lögð af. Stór hluti verksmiðjunnar var fluttur til Vestmannaeyja síðastliðið sumar og hafist var handa við verulegar endurbætur á FES. Þeim breytingum lauk undir haust og hafa þær komið vel út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×