Erlent

Á 86 konur og 170 börn

84 ára gamall Nígeríumaður, Mohammed Bello Abubakhar, ráðleggur karlmönnum um víða veröld að taka sig ekki til fyrirmyndar. Mohammed á 86 konur.

 

Hann býr í borginni Abuja í norðanverðri Nígeríu ásamt fjölmörgum kvenna sinna og að minnsta kosti 170 börnum sem hann hefur getið þeim. „Tíu konur væru of mikið fyrir aðra menn," segir hann, „en styrkur minn kemur frá Guði. Þess vegna hef ég stjórn á þessum 86 konum," segir hann.

 

Muhammed segir sér til varnar að flestar eiginkvennanna hafi komið til hans að fyrra bragði, því af sér fari mikið orð sem heilara og náttúrulækningamanni. Hann líti svo á að Guð hafi haft ástæðu til að senda sér þessar konur og því giftist hann þeim.

 

Muhammed hefur ekki vakið sérstaka hrifningu meðal íslamskra yfirvalda í Nígeríu. Kóraninn segir að hver maður geti átt allt að fjórar konur, sé hann þess umkominn að sjá fyrir þeim öllum jafnt. Þessu hafnar faðir barnanna 170 og segir Kóraninn enga refsingu leggja á þá sem eigi fleiri konur. Það sé því á valdi hvers og eins - sem og þoli hans og styrk - að eiga eins margar konur og honum sýnist.

 

Flestar eiginkvennanna líta á Mohammed Bello Abubakar sem arftaka spámannsins Múhammeðs. Og sjálfur segir hann að spámaðurinn tali reglulega til sín og leggi sér lífsreglurnar. En þetta er meira en geistleg yfirvöld í Abuja geta þolað. Þetta er villutrúarmaður, segir prédikari við aðal moskuna í Abuja. Þetta er hrein villutrú.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×