Erlent

BNA og Pólland skrifa undir varnarsamning

Donald Tusk forsætisráðherra Póllands og George Bush forseti Bandaríkjanna.
Donald Tusk forsætisráðherra Póllands og George Bush forseti Bandaríkjanna. Mynd/Getty

Pólland hefur skrifað undir samning við Bandaríkin um að hýsa hluta af skotvarnarkerfi Bandaríkjahers. Í samningnum felst að Bandaríkin munu koma 10 flugskeytum fyrir á herstöð í Póllandi í staðinn fyrir að hjálpa Pólverjum að styrkja flugvarnir sínar.

Bandaríkin segir að varnarkerfið sem þeir séu að byggja upp muni verja bæði Bandaríkin og Evrópu gegn flugskeytaárásum vafasamra þjóða.

Rússar hafa lýst yfir reiði sinni vegna samningsins og segja að hann muni valda enn versnandi samskiptum við Vesturlönd sem eru nógu slæm um þessar mundir vegna ástandsins í Georgíu. Hafa þeir sagt að þeir muni ekki lýða bandaríska flugskeytaherstöð í Póllandi án þess að aðhafast nokkuð.

Utanríkisráðherra Póllands Radoslaw Sikorski segir að þessi samningur hafi ekkert að gera með samskipti Bandaríkjamanna og Rússa varðandi Georgíu. Hann segir að þessi áfangi viðræðanna hafi verið ákveðinn fyrir meira en viku, áður en átökin hófust í Georgíu. Nýjar tillögur Bandaríkjamanna hafi innsiglað samninginn sem útskýri tímasetninguna á honum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×