Erlent

Hanna banar fleirum en Gústaf

Hitabeltisstormurinn Hanna sem nú stefnir á suðausturströnd Bandaríkjanna hefur þegar orðið fleiri að bana en Gústaf sem á undan kom. Á annað hundrað manns lét lífið þegar fárviðrið fór yfir Haíti.

Hanna fór yfir Haítí síðustu fjóra daga með þeim afleiðingum að 137, að minnsta kosti, létu lífið. Í Gonaíves-héraði urðu 250 þúsund manns fyrir búsifjum vegna veðurhamsins ogt 54 þúsund hafast nú við í neyðarskýlum víðs vegar um eyjuna.

Vindhviðurnar hreinlega rifu hrörleg húsakynni hinna fátæku í sundur. Víða flæddi sjór og vatn yfir heilu hverfin og sjá má fólk uppi á svölum og húsþökum umkringt flóðavatni. Hjálparstarfsmenn hafa átt erfitt um vik að koma hjálpargögnum inn í bæi þar sem vatnið tefur för flutningabíla. Matarskortur er víða orðinn áberandi.

Ástandið er svipað hinum megin á eyjunni, í Dóminíska lýðveldinu. Þar nota stjórnvöld þyrlur til að koma matvælum á vettvang. Í gær fór Hanna svo framhjá Bahamaeyjum, olli tjóni sem þó verður að teljast smávægilegt og stefnir nú að sögn veðurfræðinga á Norður- eða Suður-Karólínu. Fyrstu vindhviður Hönnu ættu að ná á land í Bandaríkjunum síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×