Erlent

Forseti Georgíu segir Rússa í stríði

Míkhaíl Saakashvílí, forseti Georgía.
Míkhaíl Saakashvílí, forseti Georgía. MYND/AP

Míkhaíl Saakashvílí, forseti Georgíu, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að Rússar hefðu hafið stríð gegn Georgíu. Í viðtali á CNN sagði forsetinn að með því að fara inn á georgískt landssvæði væru þeir að hefja stríð.

Fregnir hafa borist af því að rússneskar hersveitir hafi haldið inn í héraðið Suður-Ossetíu sem vill sjálfstæði frá Georgíu en á það hafa Georgíumenn ekki viljað fallast. Munu hersveitirnar hafa farið inn í höfðuborg héraðsins, Tskhinvali, eftir að fregnir bárust af því að Georgíumenn hefðu gert árás á borgina.

Saakashvílí sagði enn fremur í samtali við CNN að það væri Bandaríkjunum í hag að aðstoða Georgíu. „Við erum friðelskandi þjóð sem sætir nú árásum," sagði forsetinn.

Fyrr í dag lýsti Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands, að Rússar myndu verja samlanda sína í Suður-Ossetíu, en yfir 90 prósent íbúa svæðisins hafa rússneskt ríkifsfang. Þá greindi Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, frá því að fregnir hefðu borist af því að Georgíumenn hefðu hafið þjóðernishreinsanir í Georgíu. Fólk væri farið að flýja héraðið til þess að bjarga lífi sínu.

Mikil spenna hefur verið á milli Rússlands og Georgíu vegna Suður-Ossetíu og annars héraðs í Georgíu, Abkasíu, og hafa átök verið á milli hermanna frá Georgíu og uppreisnarmanna í Suður-Ossetíu undanfarna daga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×