Viðskipti innlent

Kaupþing reynir að róa áhyggjufulla Breta

Kaupþing reyni nú að róa áhyggjufulla Breta og segir þeim að bankinn sé traustur og ekki í hættu. Mikið er fjallað um málefni Kaupþings í breskum fjölmiðlum í morgun.

Í viðtali við Sunday Times segir Sigurður Einarsson starfandi stjórnarformaður Kaupþings að á liðnum árum hafi þeir byggt upp sterkan og fjölbreyttan banka og að þeir hafi eitt öflugasta eiginfjárhlutfall af bönkum í Evrópu. Þar að auki sé innlánahlutfall þeirra yfir 50%.

Og í viðtali við Daily Telegraph segir Sigurður meðal annars að þeir hafi áhyggjur af orðróminum sem sé í gangi um veika stöðu Kaupþings. Hann biður fólk um að taka ekki mark á honum heldur líta á tölur og staðreyndir um rekstur bankans.

Kaupþing er með umfangsmikinn rekstur í Bretlandi, einkum með netbankann Edge. Og margir af þekktustu athafnamönnum landsins eru meðal viðskiptavina bankans, eins og til dæmis Robert Tchenguiz og Candy-bræðurnir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×