Viðskipti innlent

Tryggvi fullvissar breska sparifjáreigendur á BBC

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson.

Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar var í viðtali í breska ríkisútvarpinu BBC í hádeginu þar sem hann fullvissaði breska sparifjáreigendur um það að innistæður þeirra í íslensku bönkunum Kaupþingi og Landsbanka væru öruggar.

Innlánsreikningar bankanna í Bretlandi hafa notið mikilla vinsælda og hundruð þúsunda Breta hafa lagt fé sitt inn á Icesave og Kaupthing Edge. Í kjölfar fregna af erfiðleikum í íslensku efnahagslífi hafa breskir viðskiptavinir nú vaxandi áhyggjur af innistæðum sínum.

Ásamt Tryggva Þór sat Mark Sismey-Durrant, framkvæmdastjóri Icesave fyrir svörum í þættinum Money Box á Radio 4. Hann fullvisaði breska hlustendur um að inneignir þeirra væru ekki í hættu.

Á BBC er þeirri spurningu velt upp hvort íslenska ríkið hafi bolmagn í að bjarga bönkunum fari allt á versta veg í ljósi þess að Landsbankinn og Kaupthing eru mun stærri en íslenska hagkerfið. En Tryggvi sagði í viðtalinu að yfirvöld gætu, og myndu, grípa inn í ef til þess kæmi.

„Það er öruggt að við myndum bjarga banka, öruggt," sagði Tryggvi. Hann sagði einnig að þótt bankakerfið á Íslandi væri mjög stórt í samanburði við efnahagskerfið þá væri ríkisstjórnin viss um hún gæti haft stjórn á vandanum þar sem efnahagsreikningur bankans sé í raun mjög góður.

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar hafa margir viðskiptavinir Icesave minnkað innistæður sínar til þess að þær séu minni en tryggingin sem ríkisstjórnir Íslands og Bretlands ábyrgjast. En síðustu daga hafa þúsundir viðskiptavina opnað reikninga hjá Icesave til þess að dreifa áhættunni, en íslensku bankarnir eru ekki þeir einu sem lent hafa í hremmingum síðustu vikur.

Innlán breskra sparifjáreigenda eru tryggð að 50 þúsund pundum. Hjá Icesave er því þannig fyrir komið að íslenska ríkið ábyrgist fyrstu 20 þúsund evrurnar af þeirri upphæð.

Hægt er að hlusta á viðtalið á þessari slóð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×