Erlent

Barak Obama lýsir yfir sigri sínum í forkosningunum

Barak Obama hefur lýst yfir sigri sínum í forkosningum Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Eftir sigur í Montana og naumt tap í Suður Dakóta náði hann tilskyldum fjölda kjörmanna.

Barak Obama verður þar með fyrsti blökkumaðurinn í sögunni sem býður sig fram í embætti forseta Bandaríkjanna á vegum annars af tveimur stóru flokkanna þar í landi.

Obama sagði stuðningsmönnum sínum í sigurræðu sinni að í kvöld væru lokin á sögulegri ferð og upphafið að annarri slíkri. Ferð sem myndi færa Bandaríkjunum nýjan og betri dag. Obama hefur nú náð 2.118 kjörmönnum sem tryggir honum hreinan meirihluta á flokksþingi Demókrata seinna í sumar.

Hillary Clinton var ekki reiðubúin að lýsa formlega yfir ósigri sínum í gærkvöldi en búist er við að hún geri það í dag. Menn eru þegar farnir að velta því fyrir sér hvernig þau tvö munu starfa saman að því að koma Demókrata í embætti forseta.

Heyrst hefur að Obama sé ekki hrifinn af því að hafa Hillary sem varaforsetaefni sitt en vill að hún verði heilbrigðisráðherra í nýrri stjórn sinni nái hann kosningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×