Erlent

Stofufangelsi Aung San Suu Kyi framlengt

Aung San Suu Kyi. MYND/AFP
Aung San Suu Kyi. MYND/AFP

Stofufangelsi Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Búrma, hefur verið framlengt um eitt ár. Þrátt fyrir umleitanir Sameinuðu þjóðanna hefur hún ekki losnað úr prísundinni.

Suu Kyi, sem er friðarverðlaunahafi Nóbels, hefur setið samfleytt í stofufangelsi frá 30. maí 2003.

Herforingjastjórnin í Búrma boðaði í febrúar til þingkosninga í landinu árið 2010. Kosningarnar verða þær fyrstu í Búrma í tvo áratugi.

Stjórnin handtók þrjú þúsund andófsmenn í umfangsmiklum mótmælum síðastliðið haust. Mótmælendurnir kröfðust meðal annars þess að Suu Kyi yrði leyst úr haldi ásamt félögum sínum.

Alls hefur Suu Kyi setið í stofufangelsi í tólf af síðustu átján árum. Flokkur hennar vann sigur í kosningum í landinu fyrir 18 árum en herstjórnin ógilti hins vegar þær niðurstöður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×