Innlent

Fréttablaðið og Pósthúsið sameinað Árvakri

MYND/Teitur

Árvakur hf. og 365 hf. hafa undirritað samning um að sameina Fréttablaðið og Pósthúsið Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Þannig greiðir Árvakur fyrir útgáfu nýs hlutafjár og yfirtöku skulda og kemur 365 inn í hlutahafahóp Árvakurs eftir því sem segir í tilkynningu.

„Þessi samningur er gerður í ljósi erfiðleika í blaðaútgáfu vegna harkalegs samdráttar á auglýsingamarkaði og mikilla hækkana á pappírsverði," segir í tilkynningunni. Með þessu náist fram hagræðing á dagblaðamarkaði. Enn fremur kemur fram að útgáfa 24 stunda verði sameinuð Morgunblaðinu í dag

Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, segir að á sama tíma og fyrirtækin fari þessa leið til að hagræða í rekstri leggi þau mikla áherslu á að tryggja áfram ritstjórnarlegt sjálfstæði miðlanna. „Þegar við sameinum 24 stundir Morgunblaðsrekstrinum stóreflum við Morgunblaðið með nýrri, kraftmeiri og ferskari helgarútgáfu blaðsins, sem verður kynnt um aðra helgi," segir Einar.

Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra 365, í tilkynningunniað ekki verði breytingar á starfsemi Fréttablaðsins vegna kaupanna. „Hins vegar erum við auðvitað alltaf að leita leiða til hagræðingar í rekstrinum og því verður haldið áfram."

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafunda og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þar voru fyrirætlanir um kaupin kynntar fyrir nokkru og á næstu dögum verða einstakir þættir málsins skýrðir nánar.

Hluthafar Árvakurs fyrir kaupin voru félög í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Valtýr ehf., Lyfjablóm ehf. og Garðar Gíslason ehf. Við kaupin kemur 365 hf. inn í hluthafahópinn og verður 36,5 prósenta hluthafi í Árvakri. Þór Sigfússon er áfram stjórnarformaður Árvakurs og Einar Sigurðsson forstjóri félagsins. Félagið hefur sett sér markmið um að breikka eigendahópinn þegar aðstæður á markaði gefa tilefni til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×