Erlent

Sendinefnd frá Nevis fundar með stjórnvöldum

sev skrifar
Joseph Parry.
Joseph Parry.

Joseph Parry, forsætisráðherra karabísku eyjarinnar Nevis í sambandsríkinu St Kitts og Nevis, er á leið til Íslands til að kynna sér jarðvarmanotkun hér á landi.

Parry tilkynnti á opinberri samkomu á föstudaginn að hann hefði þegið boð frá forsætisráðherra og ríkisstjórn Íslands og hyggðist halda til landsins í vikunni. Með Parry í för verða aðstoðariðnaðarráðherra eyjarinnar, Carlisle Powell og ráðuneytisstjóri sama ráðuneytis, Ernie Stapleton.

Fram kemur á fréttavefnum Sun Saint Kitts & Nevis að sendinefndin hyggist funda með Geir H. Haarde forsætisráðherra og Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra ásamt því að heimsækja jarðvarmaorkuver og menntastofnanir á sviði jarðhita.

Vefurinn hefur það eftir Parry að hann líti á landið sem höfuðstöðvar jarðvarma í heiminum. Hann leiti því þangað eftir ráðgjöf um tæknimál og hvernig Nevisbúar geti hagnast sem mest á orkunni sinni.

Fram kemur á vefnum að þegar sendinefndin snýr aftur á heimahagana verði komið á fót „samninganefnd" sem í verður meðal annars fulltrúi frá íslenska jarðvarmaiðnaðnaðinum auk fulltrúa ríkisstjórnar Nevis, OAS samtaka Ameríkuríkja og Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Nevis er eldfjallaeyja og er um þessar mundir unnið að tilraunaborunum þar. Vonast stjórnvöld til að hægt verði að nýta jarðvarmaorku þar strax á næsta ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×