Erlent

Davíð og Golíat berjast í Ossetíu

Í stríði Georgíumanna við Rússa hefur Davíð svo sannarlega verið að berjast við Golíat. Hernaðaryfirburðir Rússa eru slíkir að þeir gátu hæglega leyft sér að hafna öllum hugmyndum um vopnahlé þar til Georgíumenn höfðu dregið herlið sitt til baka og grátbeðið um friðarviðræður.

Rússar voru staðráðnir í að veita Georgíumönnum ærlega ráðningu fyrir að hafa ætlað að ganga milli bols of höfuðs á uppreisnarmönnum í Suður-Ossetíu. Nú þegar Georgíumenn virðast hafa gefist upp, þótt óformlega sé, virðist sem tilraun þeirra til að tryggja yfirráð yfir Suður-Ossetíu hafi farið endanlega út um þúfur. Rússar fagna því enda hafa þeir um langan aldur ráðið því sem þeir vilja í Suður-Ossetíu.

En það er ekki aðeins umhyggja fyrir Ossetum sem hvetur Rússa í þessum átökum. Georgía hefur á undanförnum árum horft miklu meira í austur en vestur. Georgía vill ganga í NATO og Evrópusambandið - og er þegar í biðstofunni hjá NATO. Bandaríkjastjórn hefur mjög ræktað sambandið við Mikheil Saakashvili forseta undanfarin ár og stutt stjórn hans á margan hátt, meðal annars hernaðarlega. Þetta hugnast Rússum engan veginn - þeir kæra sig ekkert um NATO í bakgarðinum hjá sér - og því má segja að samskiptin milli Washington og Moskvu varðandi Georgíu markist enn af kulnandi glæðum kalda stríðsins.

Hernaðarlega hafa Georgíumenn ekkert að segja í Rússa. Þeir eru með lítinn her og illa búinn vopnum - ekki síst í samanburði við stóra björninn í austri, eins og sjá má á þessum samanburði. Hvar sem litið er hafa Rússar gríðarlega yfirburði: í mannafla, fjölda skriðdreka, fjölda brynvarðra vagna til að flytja hermenn og vopn, orrustuflugvéla og þungavopna af öllu mögulegu tagi. Það er því varla hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Georgíumenn hafi misreiknað sig alvarlega ef þeir héldu að þeir gætu tuskað Ossetíumenn til án þess að Rússar tækju í taumana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×