Erlent

NATO segir Rússa hafa brotið gegn alþjóðalögum

Rússar hafa brotið gegn alþjóðalögum með hernaðaraðgerðum sínum í Georgíu að mati Atlantshafsbandalagsins. Ekki verður gripið til refsiaðgerða en Georgíumönnum veittur fullur stuðningur.

Spennan milli Rússa og Georgíumanna var eina umræðuefnið þegar utanríkisráðherrar NATO ríkjanna komu til fundar í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í morgun. Vel fór á með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, og Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, en Frakkar miðluðu málum í deilunni fyrir helgi og samið um vopnahlé á grundvelli tillagna þeirra.

Fundinum lauk nú skömmu fyrir hádegi. David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, ræddi við fréttamenn og sagði ríki NATO á einu máli. Rússar hefðu brotið gegn alþjóðalögum með aðgerðum sínum.

Franskur sendifulltrúi sagði í samtali við Sky-fréttastofuna að samkomulag væri í burðarliðnum. Í því fælist aukin gagnrýni á Rússa. Það hefði farið fyrir brjóstið á bandalagsþjóðunum að þeir hafi ekki virt tímamörk vopnahléssamkomulagsins við Georgíumenn og lokið við að flytja herlið sitt aftur til Suður-Ossetíu frá átakasvæðum utan héraðsins í gær. Vegna þess séu ríki bandalagsins á einu máli.

Hætta sé á að samskipti NATO og Rússlands versni enn meira en orðið er ef ekki verði hægt að ná ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli.

Skömmu fyrir hádegi bárust fregnir af því að Rússar væru byrjaðir að flytja hermenn og hergögn frá georgíska bænum Gori aftur til Suður-Ossetíu.

Rússar og Georgíumenn höfðu fyrr í morgun skiptst á tuttugu stríðsföngum. Vonir eru bundnar við að þetta dragi nokkuð úr spennu milli ríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×