Erlent

Írar fella Lissabon-sáttmálann - Baroso hvetur önnur ríki til að staðfesta

Nú er það staðfest að Írar hafa fellt Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu. Búið er að telja öllum kjördæmum og er niðurstaðan á þann veg að 53,4 prósent þeirra sem tóku þátt höfnuðu sáttmálanum en 46,6 prósent sögðu já.

Jose Manuel Baroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hvetur önnur ríki sambandsins til þess að halda ótrauð áfram við að staðfesta Lissabon sáttmálann, þrátt fyrir að Írar hafi hafnað honum í þjóðaratkvæðagreiðslu. 18 af 27 ríkjum sambandsins hafa nú þegar staðfest sáttmálann sem sumir vilja kalla stjórnarskrá sambandsins.

Írland var eina landið sem fór þá leið að skera úr um málið með þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrstu kannanir bentu til að sáttmálinn yrði samþykktur þar í landi en á síðustu vikum fór að síga á ógæfuhliðina hjá stuðningsmönnum málsins. Aðeins 42 prósent kjósenda á Írlandi neyttu atkvæðisréttar síns í kosningunum um sáttmálann sem gerir ráð fyrir umtalsverðum breytingum á stjórnskipan Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir eggjunarorð Baroso virðist Lissabon-sáttmálinn þó vera úr sögunni því öll aðildarlönd sambandsins þurfa að staðfesta hann.

Sáttmálanum er ætlað að koma í stað stjórnarskrár Evrópusambandsins sem Hollendingar og Frakkar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir um þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×