Erlent

Launagreiðslur opinberra starfsmanna í Bretlandi í hættu

Launagreiðslur hundruða þúsunda Breta sem vinna hjá bæjar- og sveitarstjórnum í landinu eru nú í uppnámi vegna falls íslensku bankanna í Bretlandi. Þá er hópur lögfræðinga frá að minnsta kosti 10 breskum og bandarískum lífeyrissjóðum nú á leið til landsins til að reyna að ná út fjármunum sem þeir áttu inni í íslensku bönkunum.

Hætta er á að starfsfólk hjá bæjar- og sveitarfélögum í Bretlandi fái ekki greidd launin sín fyrir októbermánuð. Í ljós hefur komið að þær rúmlega 100 bæjar- og sveitarstjórnir sem áttu reikninga hjá íslensku bönkunum í Bretlandi notuðu þessa reikninga til að annast launagreiðslur til starfsmanna sinna auk annarra hluta.

Samband sveitarstjórna í Bretlandi hefur biðlað til breska fjármálaráðuneytisins að það muni ekki gera kröfu um að einn milljarður af skattgreiðslum sem sveitarfélögin áttu að greiða 20. október verði greiddur á gjalddaga.

Það gæti leitt til þess að sveitarstjórnirnar geti staðið við launagreiðslur til starfsmanna sinna. Þá er hópur lögfræðinga frá að minnsta kosti 10 breskum og bandarískum lífeyrissjóðum nú á leið til landsins til að ná út fjármunum sem sjóðirnir áttu inni í íslensku bönkunum áður en þeir komust í þrot.

Samkvæmt frétt í breska blaðinu The Independent mun hópurinn fljúga til Íslands nú eftir helgina og reyna að ná tali af ráðherrum og fulltrúum Seðlabanka Íslands vegna málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×