Erlent

Allt á kafi á Haítí eftir yfirreið Hönnu

Bahamabúar óttast það versta nú þegar fellibylurinn Hanna nálgast óðfluga. Hann hefur valdið dauða og eyðileggingu á Haítí og færist sífellt í aukana. Fast á hæla Hönnu kemur fjórða stigs fellibylurinn Ike sem stefnir á Haítí.

Í Gonaives, fjórðu stærstu borg Haítí, búa hundrað og tíu þúsund manns. Hún er nú öll undir vatni og nær ómögulegt að komast að henni. Mörg hundruð íbúar eru sagðir sitja á þökum húsa sinna og bíða þess að björgunarmenn komi. Uppskera er ónýt. Talið er að hundrað tuttugu og sex Haítíbúar hið minnsta hafi farist í veðurofasnum þegar hitabeltislægði Hanna fór yfir. Þriðji kröftugi stormurinn á innan við þremur vikum.

Haítí búar hafa því þurft að þola margt síðustu daga og bíða óttaslegnir eftir fjórða stigs fellibylnum Ike sem nálgast landið óðfluga og gæti náð landi í byrjun næstu viku.

Hanna stefnir nú að ströndum Bahama og stefnir í að ná fellibylsstyrk í fyrramálið. Vindhraðinn er nú nærri þrjátíu metrum á sekúndu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×