Innlent

Lögreglan braust inn í bíl Sturlu

Breki Logason skrifar
Sturla Jónnsson vörubílstjóra.
Sturla Jónnsson vörubílstjóra.

„Þeir brutu rúðuna í honum, skrúfuðu í sundur skaftið og eru að rembast við að koma honum í burtu," segir Sturla Jónsson einn af forsprökkum vörubílstjóra. Hann segir bílinn hafa verið lagt löglega í stæði og hafi á engann hátt lokað veginum.

Sturla var staddur uppi á Útvarpi Sögu þegar Vísir náði af honum tali. „Ég er búinn að tala við eiganda bílsins sem er Lýsing fjármögnun og þeir eru að vinna í því hvernig þeir geta lagt fram kröfu á hendur lögreglu," segir Sturla og bendir á að lögregla hafi ekki verið með neinn dómsúrskurð um að fjarlægja mætti ökutækið.

Sturla var uppgefinn eftir daginn og segir ástæður látanna í dag algjörlega liggja hjá lögreglu sem hafi farið fram með offorsi.

Á Sturlu er það að heyra að menn séu langt frá því búnir að gefast upp. „Ég hef verið að fá símtöl utan af landi frá bílstjórum sem ætla að drífa sig í bæinn með draslið sitt. Það á bara að standa saman og klára þetta."

Og Sturla hefur lítið álit á ríkisstjórninni. „Þeir verða bara að fara að sinna sínum málum hérna heima í stað þess að vera í Afganistan og Ísrael alla daga, það er nóg að gera hér. Ég hef fulla meðaumkun fyrir því fólki sem er þar en það þýðir ekki að setja fólk hérna heima á guð og gaddinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×