Innlent

Fyrrverandi og núverandi starfsmenn veitingastaðar grunaðir í hnífstungumáli

Árásin átti sér stað á Hverfisgötu.
Árásin átti sér stað á Hverfisgötu.

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tveimur mönnum sem teknir voru vegna gruns um aðild að hnífstungu í miðborg Reykjavíkur. Ráðist var á erlendan karlmann aðfaranótt föstudagsins í síðustu viku og hann stunginn í bakið svo að mikið blæddi.

Mennirnir tveir voru handteknir í fyrradag og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til mánudags í Héraðsdómi og þá ákvörðun staðfesti Hæstiréttur. Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að sjá megi úr eftirlitsmyndavél hvar hópur þriggja manna og einnar stúlku gangi norður Ingólfsstrætið og beygi um hornið vestur Hverfisgötu.

Skömmu síðar sést á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél, sem snýr að Hverfisgötu, hvar einn úr ofangreindum hópi er í átökum og virðist sem hann haldi á áhaldi, sem grunur leikur á að sé hnífur. Aðrar myndir úr eftirlitsmyndavél virðist sýna tvo mannanna á hlaupum upp Hverfisgötuna á eftir þeim þriðja og virðist sem fatnaður annars tvímenningana komi heim og saman við fatnað manns úr ofangreindum hópi úr myndskeiði eftirlitsmyndakerfis.

Lögreglan leitaði eftir upplýsingum úr eftirlitsmyndavélum veitingastaðar í miðbænum þar sem grunur lék á að hópurinn hefði verið að koma þaðan eða gengið þar framhjá. Hafi þá verið rætt við starfsmann staðarins, sem síðar gat nafngreint alla þá, sem sáust á útprentun af mynd úr eftirlitsmyndakerfi enda var um starfsmenn og fyrrverandi starfsmenn staðarins að ræða. Í kjölfarið voru karlarnir þrír handteknir. Sá þriðji var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Lögregla segir brotið sérstaklega alvarlegt því hættulegu vopni hafi verið beitt í árásinni. Rannsókn málsins standi nú yfir og sé á viðkvæmu stigi. Krefjist rannsóknarhagsmunir þess, að mönnunum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×