Viðskipti innlent

Baugur selur fyrirtæki fyrir 65 milljarða

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson

Baugur Group hefur lokið endurskipulagningu á eignasafni sínu á þann veg að félagið mun nú einbeita séralfarið að fjárfestingum í smásölu. Í kjölfar breytinga á stjórnendateymi og sölu fasteignasafns félagsins á síðasta ári hefur Baugur gert samkomulag um sölu á fjárfestingum sínum í fjölmiðlum, tækni og fjármálum, þ.m.t. hlut félagins í FL Group, til tveggja nýrra, sjálfstæðra félaga. Umfang þessara viðskipta eru um 65 milljarða króna.

,,Við þessar breytingar mun Baugur einbeita sér alfarið að fjárfestingum í smásölufyrirtækjum þar sem við búum yfir fágætri reynslu. Þess utan styrkja breytingarnar okkur í frekari sókn á markaði, enda erum við sannfærð um að núverandi markaðsaðstæður eigi eftir að bjóða uppá spennandi tækifæri sem við viljum notfæra okkur. Á næstu misserum munum við ennfremur halda áfram uppbyggingu þess eignasafns sem við höfum verið að byggja á undanförnum árum og er vel yfir 200 milljarða króna virði en í því felast veruleg tækifæri til frekari verðmætasköpunar.  Það mun nást með því að styrkja enn frekar þeirra undirstöður á heimamörkuðum auk þess að efla þau í uppbyggingu á vaxtamörkuðum eins og nýmarkaðslöndum og á internetinu,“ segir Gunnar S. Sigurðsson, forstjóri Baugs Group.

Auk þess að takmarka fjárfestingar Baugs við smásölugeirann munu breytingarnar endurskilgreina landfræðilegan markað félagsins, þar sem u.þ.b. 85% fjárfestinga Baugs verða nú í Bretlandi, í Bandaríkjunum og í Skandinavíu.

Fjárfestingafélagið Stoðir Invest, sem er í eigu helstu hluthafa Baugs, kaupir hluti Baugs í fjölmiðla- og fjarskiptafélögum og Styrkur Invest, sem er í eigu Kaldbaks ehf., fjárfestingarfélags Samherja og helstu hluthafa Baugs, kaupir hluti Baugs í fjárfestinga- og fjármálafyrirtækjum. Baugur Group verður ekki hluthafi í þessum félögum.

Í kjölfar breytinganna munu Þórdís Sigurðardóttir og Eiríkur S. Jóhannsson hætta í framkvæmdastjórn Baugs Group. Þórdís var áður framkvæmdastjóri fjölmiðla- og tæknisviðs Baugs en verður nú forstjóri Stoða Invest.

Eiríkur verður forstjóri Styrks Invest en hann var áður framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs hjá Baugi. Samhliða þessu mun Andrew Lobb, forstöðumaður rekstrarsviðs Baugs Group, taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs.

,,Þessar breytingar eru síðasta skrefið í röð breytinga sem við hófum innleiðingu á í fyrra. Nýja skipulagið gerir okkur kleift að einbeita okkur af enn meiri kappi að smásölufyrirtækjum okkar. Núverandi markaðsaðstæður eru krefjandi og spennandi og í gegnum hið sterka eignasafn sem við höfum byggt upp á undanförnum árum er Baugur í einstakri stöðu til að vera í fararbroddi þeirrar þróunar sem verður á smásölu á heimsvísu á næstu árum," segir Jón Ásgeir Jóhannesson starfandi stjórnarformaður Baugs.

Í júní 2007 urðu breytingar á framkvæmdastjórn Baugs Group og í desember seldi félagið fasteignasafn sitt til FL Group.

Fyritæki og fjárfestingar sem seldar eru:

365

Teymi

Humac

365 Media /Nyhedsavisen

Hjálmur (DV, Birtingur, Skuggi)

Saga Film & EFG

Newsedge

Ýmsar fjárfestingar í minni félögum

FL Group

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×