Viðskipti innlent

Glitnir dregur úr fasteignalánum í Lúx og losar um allt að 100 milljörðum

Glitnir mun breyta áherslum í starfsemi sinni í Lúxemborg með því að draga sig út úr fasteignalánastarfsemi sem þar hefur verið starfrækt. Framvegis mun Glitnir í Lúxemborg leggja áherslu á eignastýringu fyrir viðskiptavini bankans á Norðurlöndum og á alþjóðavísu.

Með þessari breytingu losar Glitnir um verulegan hluta af fasteignalánasafni sínu í Lúxemborg og styrkir með því lausafjárstöðu bankans eins og segir í tilkynningu frá bankanum.

Þar segir einnig að endurskipulagning á starfsemi Glitnis í Evrópu sé hluti að þeirri stefnu bankans að einbeita sér að kjarnastarfsemi hans á árinu 2008. Breytingarnar í Lúxemborg koma í kjölfar ákvörðunar um að loka skrifstofu bankans í Kaupmannahöfn í febrúar síðastliðnum. Með því að draga úr umsvifum í fasteignalánastarfsemi í Lúxemborg gerir Glitnir ráð fyrir að losa fjármuni sem samsvara allt að 100 milljörðum króna í lausafé.

„Þessar breytingar eru mikilvægur liður í að skerpa áherslur bankans í Evrópu og ná fram hagræðingu og aukinni kostnaðarsamlegð í starfsemi bankans. Þetta sýnir ennfremur sveigjanleika bankans í stýringu lánasafns okkar við núverandi markaðsaðstæður", segir Helgi Anton Eiríksson, framkvæmdastjóri Glitnis í Evrópu í tilkynningunni.

Í tengslum við endurskipulagninguna hefur Glitnir ráðið Ara Daníelsson, fyrrum framkvæmdastjóra Glitnis Fjármögnunar, sem nýjan framkvæmdastjóra yfir starfsemi bankans í Lúxemborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×