Viðskipti erlent

Seðlabankinn hefur ekki sagt að hann geti bjargað bönkunum

Sigurður G. Guðjónsson hrl segir að Seðlabankinn hafi ekki lýst því yfir að hann geti bjargað íslensku bönkunum ef illa fari. Seðlabankinn hefur einfaldlega ekki nægan gjaldeyrisforða til þess í dag.

Þetta kom fram í máli Sigurðar í þættinum Silfri Egils í hádeginu á RUV þar sem efnahagsmálin voru m.a. til umræðu. Sigurður benti sem dæmi á að í Bretlandi hefði seðlabankinn þar átt fundi með stjórnendum þarlendra banka og þar hafi komið fram yfirlýsing um stuðning við þessa banka ef illa færi.

Hagfræðingur sem Vísir ræddi við tók undir þessi orð Sigurðar. Málið sé að stjórn Seðlabankans hafi gert þau mistök að auka ekki gjaldeyrisforða bankans meðan á góðærinu stóð síðustu árin.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er nú í kringum 200 milljarðar kr. Í stöðunni þyrfti hann að vera 800 til 1.000 milljarðar kr. ef vel ætti að vera. En það verður mjög kostnaðarsamt að ná þeirri upphæð nú eins og gengi krónunnar er háttað.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á þetta í ræðu sinni á flokksþingi Samfylkingarinnar og nefndi m.a. ríkisstjórnin ætlaði að verja efnahagskerfið með ráðum og dáð. "Það verður ekki sársaukalaust. Það kann að fela í sér umtalsverða lántöku af hálfu ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans - jafnvel þó lánamarkaðir séu óhagstæðir - en það kann líka að fela í sér að stýrivextir þurfi að hækka enn meira en þegar er orðið," segir Ingibjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×