Innlent

Sáu yfir í Héðinsfjörð úr gangamunnanum

Bormenn Héðinsfjarðarganga slógu í gegn á föstudag og gátu þá horft Siglufjarðarmegin úr göngunum yfir í Héðinsfjörð. Fögnuður þeirra var mikill þegar þeir sáu glitta í fjörðinn.

Héðinsfjarðargöng samanstanda af tvennum göngum sem annars vegar liggja frá Siglufirði yfir í Héðinsfjörð og hins vegar úr Héðinsfirði yfir í Ólafsfjörð. Samanlagt eru göngin um 11 kílómetrar að lengd og af því eru göngin milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar um 3,7 kílómetrar. Eins og við greindum frá í fréttum hér á Stöð 2 á föstudaginn langa hefur framkæmdum frá Siglufirði miðað betur en áætlað var en þá slógu verkamenn í gegn og hægt var að horfa frá Siglufirði yfir til Héðinsfjarðar.

Verkamennirnir fögnuðu áfanganum um helgina en almenningi gefst þó ekki kostur á að fara um göngin alveg strax eða ekki fyrr en búið verður að styrkja bergvegginn og þétta.

Nú þegar þessum áfanga er lokið á eftir að sprengja um 40 prósent af heildarlengd ganganna tveggja. Ekki hefur gengið eins vel að sprengja Ólafsfjarðarmegin vegna vatns og bergþéttinga en áætluð verklok eru í desember á næsta ári. Þá verður hægt að aka úr Siglufirði yfir til Ólafsfjarðar í gegnum göngin tvö sem styttir leiðina á milli staðana um rúma 50 kílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×