Viðskipti innlent

Stjórnendur Exista ráðfærðu sig ekki við ráðherra

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.

Stjórnendur Exista ráðfærðu sig ekki við Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra áður en þeir ákváðu að gera yfirtökutilboð í Skipti, móðurfélag Símans. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær var greint frá því að viðskiptaráðherra ætli að láta kanna hvort Exista sé heimilt að greiða fyrir bréf í Skiptum með nýjum hlutabréfum í sjálfu sér.

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, segir að það sé algengur viðskiptamáti að kaupa hlut í félagi og greiða fyrir með hlut í öðru félagi líkt og Exista geri í þessu tilfelli. Hann vill ekki tjá sig sérstaklega um orð ráðherrans. Hann segir þó að allt sem Exista hafi gert í þessu máli sé vel ígrundað og heimilt samkvæmt lögum. Hann ítrekar að Skipti muni fara á markað um leið og markaðsaðstæður gefi tilefni til.

Viðskiptaráðherra segist hafa heyrt í stjórnendum Exista nú um helgina og hann hyggist fara yfir málið með þeim á þriðjudag. Hann segist ekki vera búinn að fella neina dóma í þessu máli en sjái sérstaka ástæðu til að kynna sér það nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×