Viðskipti innlent

Vildi sjálfur vera lengur hjá REI

Guðmundur Þóroddsson
Guðmundur Þóroddsson

„Það er nýkomin stjórn í fyrirtækið og það á eftir að ganga frá ýmsum málum, meðal annars að ráða einhvern í staðinn fyrir mig," segir Guðmundur Þóroddsson forstjóri REI sem átti að snúa tilbaka í Orkuveitu Reykjavíkur þann 1.apríl.

Guðmundur sem áður gegndi starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur fór í leyfi til þess að taka við forstjórastólnum í REI. Stjórn OR ákvað hinsvegar á fundi sínum í dag að framlengja leyfi Guðmundur um tvo mánuði.

Hann segist sjálfur hafa viljað vera lengur þar sem lítið hefur verið hægt að skipuleggja framtíð REI undanfarið og því sé eðlilegt að framlengja þetta leyfi. „Orkuveitan er hinsvegar í góðum málum."

Aðspurður um hugsanlega aðkomu REI að vatnsorkuveri í Nepal segir Guðmundur að einungis sé verið að skoða útboðsgögn sem fyrirtækið keypti.

REI er eitt af 21 fyrirtæki sem keypti gögnin en verið er að leita að hugsanlegum aðila til þess að reisa, reka og dreifa vatnsorku í Nepal

„Við erum enn ekkert farnir að velta fyrir okkur hvort við förum inn í Nepal, þetta er bara svona upplýsingaöflun."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×