Innlent

Ferðaþjónustan farin að líða fyrir stóriðju?

MYND/Vilhelm

Þingmaður Samfylkingarinnar velti því fyrir sér í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort ferðaþjónustan væri farin að líða fyrir vöxt mengandi starfsemi hér á landi. Forsætisráðherra sagði hins vegar mengandi starfsemi hér á landi hverfandi í alþjóðlegu samhengi.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér hljóðs í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og benti á að Ísland hefði fallið úr fjórða sæti í það ellefta á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni í ferðaþjónustu.

Benti hann á að því ylli ýmislegt en athygli hefði vakið að ráðið tæki aukið tillit til umhverfisverndar og sjálfbærni. Það væri ein af ástæðunum fyrir því að Ísland félli á listanum. Íslendingar væru í 90. sæti yfir losun gróðurhúsalofttegunda og benti Helgi á að í tölum Alþjóðaefnahagsráðsins væri ekki gert ráð fyrir mengandi starfsemi á Austfjörðum.

Þetta kynni að benda til þess að ímynd landsins hefði beðið ákveðinn skaða og spurning hvort ferðaþjónustan væri farin að líða fyrir það að mengandi starfsemi hefði aukist í landinu. Spurði Helgi hvort ekki væri við því að búast að alþjóðastofnanir horfðu nú í meira mæli til mengunar þegar verið væri að meta lífskjör í löndum heims.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði skýringu þingmannsins á lækkuninni á listanum langsótta og en sagði vissulega leitt að Ísland félli úr fjórða í ellefta sæti. Benti hann á að aðeins eitt norrænt land væri ofar en Íslendingar á listanum en menn þyrftu engu að síður að herða róðurinn.

Ráðherra sagði mengandi starfsemi hér á landi hverfandi þegar horft væri til alls heimsins og gróðurhúsalofttegundir sem losaðar væru hér væru aðeins brot af heildarlosun heimsins.

Helgi sagði rétt að Ísland væri agnarsmátt en mengun á hvern íbúa hefði farið ört vaxandi. Sagðist hann ekki telja að það væri langsótt að velta því fyrir sér hvort heimurinn myndi í ríkari mæli horfa til þess hversu mikið menn menga þegar lífskjör væru metin. Það gæfi ástæðu til þess að íhuga hvort menn hefðu farið of geyst hér á landi.

Forsætisráðherra svaraði því til að þingmaðurinn hefði í raun ekki verið að spyrja um samkeppnishæfni ferðaþjónustu heldur koma á framfæri skoðunum sínum í stóriðju en sú skoðun lægi fyrir. Spurði hann hversu mikil mengunin myndi verða ef framleiðslan færi fram annars staðar en hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×