Innlent

Hagsmunamat en ekki kredda í Evrópumálum

MYND/Valli

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir að blákalt hagsmunamat en ekki kredda verði að ráða umræðum og ákvörðunum tengdum Evrópusambandinu.

Ráðherra flutti erindi á Iðnþingi í dag þar sem hann ræddi Evrópumálin sem eru fyrirferðarmikil á þinginu. Össur sagði inngöngu í ESB ekki á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn en það breytti ekki þeirri skoðun hans að ávinningur af fullri þátttöku myndi auka velmegun í landinu.

Gengi yrði stöðugra, viðskiptakostnaður og tollar lækka og vöruverð sömuleiðis. „Í þessu efni má ekki kredda heldur blákalt hagsmunamat ráða. Ég trúi því að þekking landsmanna á þessum möguleikum fari vaxandi og að á komandi árum verði auðveldara en fyrr að skýra og ná fram sérhagsmunum okkar gagnvart Evrópusambandinu. Það er því óhjákvæmilegt að málefni þess verði snar þáttur í mótun framtíðar okkar Íslendinga," sagði Össur.

Hann benti einnig á að góðar fréttir af framtíðinni bærust nú fyrir iðnaðinn því Ísland væri þokast inn á radar alþjóðlegra hátæknifyrirtækja. Benti ráðherra meðal annars á uppbyggingu álþynnuverksmiðju á Akureyri og gagnavers á Keflavíkurflugvelli í því sambandi.

Ræða iðnaðarráðherra er í heild sinni hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×