Innlent

Fischer og Miyoko voru í alvörunni gift

Bobby Fischer
Bobby Fischer

Lögfræðingur Bobby Fischer í Japan segir skákmeistarann hafa verið giftan hinni japönsku Miyoko Watai. Sjálfur segist hann hafa verið lögformlegur hjúskaparvottur og hjúskaparvottorðið beri nafn hans því til staðfestingar.

Orðrómur hefur verið uppi um að Miyoko og Bobby hafi í raun ekki verið gift. Bent hefur verið á að Miyoko hafi einungis framvísað ljósriti af hjúskaparvottorðinu sem nægi ekki til þess að gera tilkall til dánarbúsins. Frumritið mun þó vera á leiðinni til landsins.

Lögfræðingurinn, John Bosnitch, segir í yfirlýsingu á skáksíðunni chessbase.com að enginn vafi sé um að þau hafi verið gift, það hafi í raun ekki verið neitt leyndarmál.

„Í miðjum málaferlunum, þá samþykkti Bobby að nú væri kominn tími til þess að viðurkenna hjónaband sitt og Miyoko Watai opinberlega, en þau höfðu búið saman í nokkur ár. Ég var lögformlegur hjúskaparvottur og hjúskaparvottorðið ber nafn mitt því til staðfestingar," segir í yfirlýsingu Bosnitch.

Því hefur einnig verið haldið fram að Fischer hafi átt dóttur á Filippseyjum. Ef það reynist rétt þá þykir ljóst að dóttirin og eiginkonan gera tilkall til arfsins samkvæmt íslenskum erfðalögum. Talið er að Bobby Fischer hafi látið eftir sig um 140 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×