Viðskipti innlent

Raunhæft að sameina Landsbankann og Straum

Í þeirri stöðu sem komin er upp á fjármálamarkaðinum búast menn við samruna eða sameiningu félaga í einhverjum mæli. Raunhæft er til dæmis að sameina Landsbankann og Straum-Burðarás vegna eignatengsla að mati Jafets Ólafssonar sérfræðings í fjármálum.

Jafet nefnir einnig að það sé raunhæfur möguleiki í stöðunni að sameina SPRON og Kaupþing. Þar koma eignatengsl einnig við sögu en nefna má að SPRON á stóran hlut í Exista sem aftur á stóran hlut í Kaupþingi.

„Að öðru leyti má almennt segja sér að sennilega verður haldið áfram að sameina sparisjóðina á landinu," segir Jafet og bætir við að vart sé um fleiri möguleika að ræða hvað málið almennt varðar. „Það eru ekki svo mörg félög eftir í kauphöllinni þar sem sameining eða samruni er raunhæfur möguleiki," segir hann.

Efnahagsumhverfi fyrirtækja á þessu ári mun kalla á hagræðingu, aðhald, samruna og sameiningar líkt og fram kemur í nýrri afkomuspá greiningar Glitnis. Skortur og hátt verð á fjármagni gerir arðsemiskröfuna hærri. Samdráttur í eftirspurn sem og í fjárfestingu og stórum hluta neyslunnar knýr einnig á um niðurskurð og hagræðingu.

Að sögn greiningar Glitnis mun þetta verða sýnilegt í ýmsum geirum hagkerfisins. Búast má við samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna og í íbúðabyggingum. Þá mun þetta einnig vera sýnilegt í þeirri starfsemi sem tengist ýmsum neyslutengdum innflutningi, t.d. á bílum.

Í fjármálastarfsemi er líklegt að hræringa verði vart en hluta af því má rekja til þeirra þróunar sem orðið hefur á undanförnum árum þar sem smærri einingar hafa verið að gefa eftir fyrir stærri. Má þar nefna sameiningar innan sparisjóðakerfisins. Þessi þróun mun eflaust halda áfram á árinu og jafnvel með auknum hraða vegna efnahagsástandsins. Þessu til viðbótar má reikna með því að sameiningar og samrunar verði nokkrir hjá verðbréfafyrirtækjum og þá sérstaklega þeim sem minni eru, að því er segir í afkomuspánni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×