Viðskipti innlent

Íslensk fjárfesting ehf. með 73% hlut í Kilroy Travels

Íslensk fjárfesting ehf., sem keypti meirihluta í ferðaskrifstofukeðjunni Kilroy Travels International A/S í mars sl., hefur nýtt forkaupsrétt sinn á 20% hlut í félaginu og á nú 73% hlut.

Straumur Fjárfestingabanki í Danmörku var ráðgjafi kaupanda og fjármagnaði kaupin. Kaupverð er ekki gefið upp. Íslensk fjárfesting ehf. er fjárfestingafélag í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.

 

 

Kilroy rekur 26 skrifstofur á Norðurlöndum og í Hollandi. Aðrir eigendur félagsins eru framkvæmdastjóri, nokkrir lykilstjórnendur og fyrrum stjórnarformaður Kilroy. Stjórnendateymi félagsins er óbreytt eftir kaupin. Kilroy velti u.þ.b. 14 milljörðum króna á síðasta ári og starfsmenn eru ríflega 300.

 

 

Arnar Þórisson, stjórnarformaður Kilroy, segir að ávallt hafi staðið til að nýta þennan kauprétt að 20% hlut í félaginu. „Félagið er í góðum rekstri og er fjárhagslega sterkt. Vörumerkið Kilroy er mjög þekkt á Norðurlöndunum og þrátt fyrir stöðugan vöxt á undanförnum árum sjáum við mörg tækifæri til enn frekari sóknar. Ásamt því að hlúa að innri vexti fyrirtækisins erum við stöðugt á höttunum eftir ákjósanlegum kauptækifærum. Við teljum mörg góð tækifæri felast í ferðamarkaðnum en hann hefur verið í stöðugum vexti undanfarna áratugi og er útlit fyrir að svo verði áfram." segir Arnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×