Viðskipti innlent

Erfiðar aðstæður seinka nýskráningum í kauphölinni

Búast má við því að erfiðar markaðsaðstæður í Kauphöllinni nú í upphafi árs verði til þess að seinka þeim nýskráningum sem fyrirhugaðar eru á árinu.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis. Þar segir að tvær stórar nýskráningar hafa verið boðaðar á fyrri hluta ársins en auk Skipta, móðurfélags Símans er skráningu Landic Property beðið. Þá hefur Promens boðað komu sína á íslenska hlutabréfamarkaðinn en ólíklegt er að Promens láti slag standa í árferði líkt og því sem nú ríkir á mörkuðum.

Nokkur félöghafa boðað hlutabréfaútboð á árinu en þar má nefna Kaupþing, FL Group og Marel. Loks má búast við því að fleiri félög leiti eftir fjármagni með hlutafjárútgáfum ef láns-og lausafjárvandinn stendur langt fram á árið og verði til þess að skerða aðgang að lánsfé.

Nokkuð var um nýskráningar félaga í OMXI Kauphöllinni á síðasta ári. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis var skráður ásamt Century Aluminum og færeysku félögunum Föroya Banka, Eik Banka og Atlantic Airways. Þá var Actavis, stærsta rekstrarfélagið í Kauphöllinni afskráð ásamt Mosaic. Vera má að afskráningar verði eitthvað fleiri á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×