Viðskipti innlent

Síminn prófar langdrægt 3G farsímakerfi

Síminn hefur fengið úthlutað tilraunaleyfi frá Póst og fjarskiptastofnun fyrir langdrægt 3G farsímakerfi. Helstu kostir kerfisins umfram hefðbundin GSM kerfi eru sagðir þeir að drægni nýja kerfisins er 50 prósentum meiri auk þess sem mögulegur gagnahraði er þúsundfaldur á við það sem býðst í langdrægum GSM kerfum. Síminn vinnur þessa dagana að uppsetningu á búnaðinum á Suðurlandi og áætlar að hefja tilraunir í þessari viku.

„Kerfið er samkvæmt UMTS staðli og nýtir 900MHz tíðni sem er sama tíðni og hefðbundin GSM kerfi nota," segir í tilkynningu frá Símanum. „UMTS staðallinn er viðurkenndur 3G staðall fyrir farsímaþjónustu og er sá sami og Síminn hefur notað við uppbyggingu á 3G kerfi Símans á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og í Leifsstöð, en þar er 2100 MHz tíðni notuð."

Munurinn á þessum tveimur tíðnisviðum, þ.e. UMTS 2100 og UMTS 900, felst einna helst í því að útbreiðslueiginleikar lægri tíðna eru almennt betri „og má því vænta umtalsverðs meiri gagnahraða í mikilli fjarlægð frá sendistöðvum," segir í tilkynningunni.

„Síminn er tæknilega í fremstu röð fjarskiptafyrirtækja sem bjóða upp á 3G þjónustu í heiminum í dag og er eitt eitt örfárra fjarskiptafyrirtækja sem hefur prófanir sem þessar. Tilraunakerfið er sett upp í samvinnu við Ericsson sem er leiðandi fyrirtæki í þróun og sölu á fjarskiptabúnaði í heiminum," segir einnig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×