Viðskipti innlent

Spá 8% gengislækkun krónunnar á árinu

Í nýrri gengis- og stýrivaxtaspá greiningar Glitnis segir að gengi krónunnar muni lækka um 8% yfir árið og að gengisvísitalan muni standa nærri 130 stigum við lok ársins.

Þetta er nokkur breyting frá fyrri spá greiningarinnar en breytingin á spánni er tilkomin vegna breyttrar stýrivaxtaspár og þá telur greiningin einnig að hægar muni draga úr áhættufælni á fyrri hluta ársins en áður var talið.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar og þar segir að fyrri hluti ársins muni markast af hægfara veikingu krónu samkvæmt spánni, en í kjölfar vaxtalækkunar Seðlabanka með vorinu mun gengi krónu gefa hraðar eftir.

Á næsta ári mun krónan að líkindum sækja nokkuð í sig veðrið á ný þegar aukið líf færist jafnt í innlent hagkerfi og alþjóðlega fjármálamarkaði, auk þess sem dregur úr ytra ójafnvægi íslenska hagkerfisins og fjárfestar sjá fram á lok vaxtalækkunarferlis Seðlabanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×