Viðskipti innlent

Grænt ljós Landsbanka á viðræður um kaupin á Close Brothers

Landsbankinn og Cenkos Securities hafa fengið grænt ljós á viðræður við fjármálafyrirtækið Close Brothers um hugsanlega yfirtöku á því síðastnefnda. Kauphöllinni barst tilkynning um málið í morgun.

Fyrstu fregnir um áhuga Landsbankans og Cenkos á Close Brothers komu fram í dagsljósið í nóvember í fyrra en fyrsta yfirtökutilboðinu var hafnað. Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans segir að málið hafi verið í biðstöðu síðan en nú væri komið grænt ljós á viðræðurnar. "Við munum nú hefja þessar viðræður og málið mun skýrast á næstunni," segir Sigurjón.

Markaðsvirði Close Brohers er um 1,5 milljarður punda eða tæplega 190 milljarðar kr. Aðspurður segir Sigurjón að Close Brothers sé fjórskipt og muni einn af fjórum hlutunum, sá stærsti. kom í hlut Landsbankans en hann vill að öðru leiti ekki ræða skiptingu á kaupunum milli Landsbankans og Cenkos.

Í tilkynningu um málið til kauphallarinnar segir m.a.: "Landsbankinn hefur áður lýst því yfir, að eitt af höfuð markmiðum hans sé að renna fleiri stoðum undir alþjóðlega starfsemi bankans. Það er þannig

keppikefli bankans að auka landfræðilega dreifingu lánasafns hans, fjármögnunar og tekjumyndunar, en þeim markmiðum hyggst bankinn ná ekki síst með kaupum á fyrirtækjum sem til þess eru fallin."

Síðar segir ennfremur að gangi viðskiptin eftir hyggst Landsbankinn festa kaup á bankastarfsemi félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×