Viðskipti innlent

Icelandic Glacial valið besta vatnið

Icelandic Glacial, drykkjarvatn sem félag Jóns Ólafssonar framleiðir, hefur verið valið besta vatnið árið 2007 að mati BevNET, áhrifamikils fjölmiðlafyrirtækis á bandarískum drykkjarvörumarkaði.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að í rökstuðningi BevNET fyrir valinu á Icelandic Glacial lindarvatninu segi að einstaklega hreinn uppruni vatnsins úr Ölfusbrunni hafi skipt þar miklu máli ásamt áætlun framleiðandans um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar.

Haft er eftir Jóni Ólafssyni, stjórnarformanni Icelandic Water Holdings, að hundruð vatnsframleiðenda keppi á bandarískum markaði þannig að það sé einstakur heiður og viðurkenning fyrir áherslu félagsins á gæðaframleiðslu og umhverfisvernd að fá þessi verðlaun.

Frá því að Icelandic Glacial lindarvatn kom á markaðinn austan hafs og vestan árið 2005 hefur framleiðslan hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga. Í september síðastliðnum hlaut Icelandic Glacial fyrstu verðlaun fyrir bestu umhverfisáætlunina á BottledWaterWorld, árlegri ráðstefnu vatnsframleiðenda.

Árið 2005 fékk hönnun umbúðanna verðlaun á þessari sömu ráðstefnu. Icelandic Glacial hlaut í júní síðastliðnum vottun frá CarbonNeutral samtökunum í Bretlandi fyrir áætlun um ráðstafanir til kolefnisjöfnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×