Viðskipti innlent

Glitnir spáir því að verulega hægi á fasteignamarkaðinum

Greining Glitnis reiknar með að verulega hægi á fasteignamarkaðinum á þessu ári. Ástæður þessa felast helst í háum vöxtum og erfiðari fjármögnun sem veikir kaupgetu sér í lagi nýrra kaupenda á markaðinum.

Greiningin gerir ráð fyrir því að verðið haldist nánast óbreytt frá ársbyrjun til loka árs, en ágætur gangur í hagkerfinu og góður kaupmáttur heimilanna teljum við að komi í veg fyrir mikla verðlækkun.

Í umfjöllun sinni um málið segir greiningin m.a. að þróunin á húsnæðismarkaði undanfarin ár litaðist af breytingum á lánskjörum og mikilli eftirspurn sem rekja má til kaupmáttaraukningar og fólksfjölgunar. Frá ársbyrjun 2004 hefur húsnæðisverð á landinu öllu hækkað um 86% samkvæmt mælingum Hagstofunnar.

Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði fjölbýli um 87% á sama tímabili og einbýli um 113%. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur einnig verið með mesta móti á sama tímabili.

Í upphafi síðasta árs var fasteignamarkaðurinn á rólegri nótum en árin á undan, bæði hvað varðar veltu og verðþróun en mestur gangur var á markaðinum á 2. og 3. fjórðungi ársins. Meðalárshækkun á 1. fjórðungi ársins um 5,8% en var 14,2% á 4. fjórðungi. Þetta fór samhliða mikilli veltuaukningu sem þó dró úr undir lok ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×