Viðskipti innlent

Þessir eiga Baug, Styrk og Stoðir

Jón Ásgeir Jóhannesson er starfandi stjórnarformaður Baugs Group.
Jón Ásgeir Jóhannesson er starfandi stjórnarformaður Baugs Group.

Í kjölfar þess að Baugur Group seldi fjölmiðla- tækni- og fjárfestingahluta sína yfir til tveggja systurfélaga, Stoðir Invest og Styrks Invest hafa margir velt því fyrir sér hverjir séu raunverulegir eigendur þessara þriggja félaga. Vísir varpar ljósi á málið.

Baugur Group er óskráð félag sem gerir það verkum að upplýsingar um það liggja ekki auðveldlega á lausu. Eftir því sem Vísir kemst næst er eignarhald félagsins að stærstum hluta á höndum fárra aðila sem ráða yfir 98% af bréfum félagsins. Gaumur, sem er eignarhaldsfélag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, foreldra hans Jóhannesar Jónssonar og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur og systur hans Kristínar, á stærstan hluta eða um 65%. Bagu, sem er í eigu Hreins Loftssonar, stjórnarmanns í Baugi, og barna Péturs Björnssonar í Vífilfelli, er næststærsti hluthafi Baugs Group og á um 10% hlut. Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á um 8% hlut í gegnum eignarhaldsfélag sitt ISP og Don McCarthy og Kevin Stanford eiga rúmlega 7% hvor.

Smelltu á myndina til að stækka hana

Baugur seldi fjölmiðla- og tæknihluta sinn sem samanstendur af skráðu félögunum 365 og Teymi, Apple-fyrirtækinu Humac, 51% í 365 Media sem á Nyhedsavisen. Hjálm sem á DV, Birtíng og bókaútgáfuna Skugga, Saga Film og European Film Group, fréttaveituna Newsedge sem og annarra minni fjárfestinga í ýmsum félögum. Kaupandinn er Stoðir Invest, sem samanstendur samkvæmt fréttatilkynningu af nokkrum stærstu hluthöfum Baugs Group. Heimildir Vísis herma að aðeins þrír stærstu hluthafarnir Gaumur, Bagu og ISP hafi áhuga á fjölmiðlarekstri og munu þau skipta eignarhaldi á Stoðum Invest í samræmi við eignarhlut þeirra í Baugi.

Heimildir Vísis herma að búið sé að skipa stjórn félagsins. Jón Ásgeir Jóhannesson verður stjórnarformaður en hann er jafnframt stjórnarformaður 365. Með honum í stjórn verða systir hans Kristín og Hreinn Loftsson sem er jafnframt stjórnarformaður Hjálms.

Baugur seldi líka hlut sinn í FL Group til Styrks Invest. Stærsti hluthafi þar er Kaldbakur, sem er í eigu útgerðarfélagsins Samherja. Forstjóri þess er Þorsteinn Már Baldvinsson sem er jafnframt stjórnarformaður í Glitni sem er stærsta og verðmætasta eign FL Group í dag. Auk Kaldbaks eru eigendur Styrks Gaumur, Ingibjörg Pálmasdóttir og Hagar, sem er í eigu Baugs. Samkvæmt heimildum Vísis er ekki enn búið að skipa stjórn í Styrki en búist er við að það verði gert á næstu dögum. Líklegt þykir að Þorsteinn Már verði stjórnarformaður félagsins.

Á skýringarmyndinni hér að ofan má sjá hvernig félögin þrjú tengjast innbyrðis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×