Innlent

FÍS sendir viðskiptaráðherra tóninn

MYND/GVA

Félag íslenskra stórkaupmanna sendir Björgvini G. Sigurðsssyni viðskiptaráðherra tóninn í tilkynningu í kjölfar átaks ráðuneytisins vegna hækkunar verðlags.

Þar gagnrýnir félagið þá ákvörðun stjórnvalda að fela hagdeild ASÍ að standa að sérstöku átaki í verðlagseftirliti. Það sé ekki til þess fallið að skapa traust því bæði formaður og hagfræðingur ASÍ hafi látið hafa það eftir sér að fyrirtæki í verslun hafi hækkað vöruverð langt umfram þörf án þess að hafa þurft að rökstyðja þær fullyrðingar. Spyr FÍS hvort líklegt sé að samtök þar sem forsvarsmenn hafi svo fyrirframmótaðar skoðanir á þessum málum geti gert hlutlaustar verðkannanir.

Félagið segir þó að mesta furðu veki orð viðskiptaráðherra sem vilji að fyrirtæki fresti hækkunum og lækki jafnvel verð. „Ætlast viðskiptaráðherra virkilega til þess að verslunin í landinu taki á sig afleiðingar gengisbreytinga undangenginna vikna upp á tugi prósenta, afleiðingar erlendra hráefnishækkana upp á tugi prósenta og afleiðingar innlendra kostnaðarhækkana, einnig upp á tugi prósenta? Er ráðherrann að fara fram á það við fyrirtækin að þau jafnvel stundi undirverðlagningu á vöru og þjónustu? Er ráðherrann að ætlast til þess fyrirtækin hagi rekstri sínum þannig að hann sigli í kaf?" spyr Félag íslenskra stórkaupmanna.

Stjórnvöld líti í eigin barm

Þau spyrja enn fremur hvort stjórnvöldum væri ekki nær að líta í eigin barm til aðgerða sem séu í þeirra valdi. Lánsfjárskorturinn í landinu sé á góðri leið með að stöðva allar framkvæmdir og gengis- og gjaldmiðilsmálin verði að leysa. Þá vill félagði að stjórnvöld lækki eða afnemi álögur á innfluttar búvörur og stemmi stigu við því vaxtaokri sem fyrirtæki og einstaklingar búa við. Þetta séu aðgerðir sem stjórnvöld hafi í hendi sér að grípa til og myndu strax hafa jákvæð áhrif.

„Það er erfitt fyrir eina atvinnugrein að sitja undir þeim stöðuga áróðri sem verslunin hefur mátt þola að undanförnu. Það er vandasamt að bera hönd yfir höfuð sér þegar áróðurinn er svo gengdarlaus sem raun ber vitni, segir einnig í tilkynningunni. Fyrirtæki innan FÍS finni til fullrar ábyrgðar og ætli sér alls ekki að maka krókinn á því ástandi sem nú ríkir í gengis- og verðlagsmálum. Fyrirtækin geri hins vegar kröfu til þess að njóta sammælis í opinberri umræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×